Leigusala heimilt að ganga að tryggingu leigjanda vegna þrifa.
Leigjandi lagði fram skv. leigusamningi ábyrgðartryggingu að fjárhæð 368.000 kr. Við lok leigutíma gerði leigusali kröfu í tryggingu að fjárhæð kr. 236.899 kr. vegna tjóns á hinu leigða og fylgifé. Einnig taldi leigusali að þrif höfðu ekki verið nægileg. Skv. húsaleigulögunum skulu leigjandi og leigusali gera úttekt á ástandi hins leigða áður en afhending fer fram og við lok leigutíma. Leigusali hafði einhliða aflað úttektar á ástandi hins leigða, bæði við upphaf og lok leigutíma. Var úttektin því ekki í samræmi við ákvæði húsaleigulaganna og telur nefndin því úttektina ekki vera fullnægjandi sönnun um að tjón hafi orðið á húsnæði. Nefndin taldi það sannað að þrifum væri ábótavant þar sem leigjandi bauðst til að koma að þrífa íbúðina eftir skil.
Niðurstaða: Leigjandi þarf að greiða úr ábyrgðartryggingu 25.000 kr. vegna þrifa. Kröfu leigusala vegna tjóns á hinu leigða er hafnað.