Ólögmæt riftun leigusala. Endurgreiðsla leigu. Munnlegur leigusamningur.
Aðilar gerðu með sér munnlegan leigusamning þess efnis að leigjandi fékk herbergi með aðgengi að eldhúsi og baðherbergi í íbúð leigusala til sex mánaða. Leigjandi greiddi við upphaf leigu 95.000 kr. fyrir október mánuð. Leigusali rifti leigusamningi þegar liðnir voru sex dagar af leigutíma á þeirri forsendu að umgengni leigjanda um eldhús og baðherbergi væri of truflandi. Riftunarheimildir leigusala koma fram í 61.gr. húsaleigulaganna en engin þeirra á við um þetta tilvik, aftur á móti féllst leigjandi á riftunina og flutti út þann 10. október. Leigjandi krafðist þess að fá endurgreitt leigu fyrir 11. – 31. október er leigusali hafnaði.
Samkvæmt 3. mgr. 61. gr. húsaleigulaga falla réttindi og skyldur leigusala og leigjanda samkvæmt leigusamningi niður frá dagsetningu riftunar og skal leigjandi rýma húsnæðið þegar í stað nema aðilar semji um annað og skal leigusali þá eiga rétt á greiðslu leigu vegna þess tíma sem líður frá riftun og þar til leigjandi hefur rýmt leiguhúsnæðið samkvæmt samkomulaginu.
Niðurstaða: Leigusala ber að endurgreiða leigjanda leigu vegna 11.- 31. október að fjárhæð 64.365 kr.