Aðilar gerðu með sér ótímabundinn leigusamning frá 1. mars 2016. Til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila lagði leigjandi fram tryggingarfé að fjárhæð 440.000 kr. við upphaf leigutíma. Leigusali krafðist viðurkenningar á að honum hafi verið heimilt að halda eftir 80.000 kr. vegna kostnaðar við þrif á hinu leigða við lok leigutíma og vegna viðgerðar á veggjum og á dyrasíma. Íbúðinni var skilað 28. febrúar 2019 og gerði leigusali kröfu í tryggingarféð með bréfi, dags. 25. mars 2019. Leigjandi hafnaði kröfunni með bréfi, dags. 31. mars 2019, að því undanskildu að hann féllst á að 5.000 kr. yrði haldið eftir vegna lagfæringa eftir sjónvarpsfestingu sem hann hengdi upp. Þar sem ekki var gerð úttekt á íbúðinni, hvorki við upphaf né lok leigutíma taldi kærunefnd að ekki lægi fyrir viðhlítandi sönnun fyrir því ástandi á íbúðinni við lok leigutíma sem leigusali lýsti.
Niðurstaða: Ekki var fallist á að leigusala hafi verið heimilt að halda tryggingarfénu eftir vegna skemmda og þrifa á íbúðinni og bar leigusala að skila tryggingafénu ásamt verðbótum að frádregnum 5.000 kr. sem leigjandi samþykkti að greiða honum í skaðabætur.