Aðilar gerðu munnlegan leigusamning um leigu á herbergi. Leigjandi hafði greitt tryggingu að fjárhæð 60.000 kr. til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi. Leigusali krafðist þess að leigjandi bæri að greiða leigu að fjárhæð 220.000 kr. en leigjandi hafði yfirgefið hið leigða um miðjan mánuð án þess að hafa látið leigusala vita. Þá krafðist leigusali einnig þess að leigjandi greiddi 60.000 kr. vegna slæmrar umgengni.
Leigusali lagði fram kæru í máli þessu vegna meintra vanefnda leigjanda á húsaleigusamningi aðila en kærunni fylgdu engin gögn. Kærunefnd óskaði eftir nánari gögnum og/eða upplýsingum frá leigusala vegna leigusamningsins, til að mynda um leigutíma, og hvenær leigjandi hafi yfirgefið hið leigða. Kærunefnd óskaði einnig eftir yfirliti yfir leigugreiðslur til leigusala.
Kærunefnd taldi að verulega skorti á upplýsingum um grundvallaratriði leigusamningsins. Þá taldi kærunefnd að ekki hafi verið skilmerkilega greint frá ágreiningsefninu og kröfur leigusala væri ekki nægjanlega rökstuddar.
Niðurstaða: kröfu leigusala var vísað frá.