Leigjandi sá herbergi auglýst til útleigu og setti sig í samband við leigusala símleiðis. Komust þeir að munnlegu samkomulagi um leigu á herberginu. Samhliða hafi leiga út mánuðinn verið greidd ásamt tryggingu sem nam andvirði leigufjárhæðar fyrir einn mánuð. Skömmu eftir afhendingu lykla sem fór fram þann 16. janúar, hafi leigjandi farið þess á leit við leigusala að hætta við þar sem hún taldi herbergið ekki íbúðarhæft. Illa hafi gengið að ná sambandi við leigusala en þann 24. janúar skilaði leigjandi leigusala lyklum af herberginu. Leigusali bauðst þá til að útvega annað herbergi sem leigjandi þáði.
Sama var upp á teningnum varðandi nýja herbergið og skilaði leigjandi leigusala lyklum af því þann 31. janúar. Ágreiningur í málinu snerist um kröfu leigusala um greiðslu leigu fyrir febrúar sem og kröfu hans í tryggingarfé leigjanda. Leigjandi krafðist aftur á móti endurgreiðslu á tryggingarfénu og niðurfellingu á kröfu leigusala um greiðslu leigu fyrir febrúar.
Í málinu lá fyrir að nýr leigjandi hafði fengið aðgengi að herberginu strax daginn eftir að leigjandi málsins flutti út. Það lá þar með fyrir að leigusali hafði ekki orðið fyrir neinu tjóni. Málatilbúnaður leigusala byggði á aðildarskorti þar sem leigjandi sjálfur hafði ekki lagt út leigugreiðsluna og tryggingarféð, heldur vinur hennar og þar með ætti leigjandinn sjálfur ekki rétt á endurgreiðslu.
Kærunefndin féllst á kröfu leigjanda um endurgreiðslu á tryggingafénu ásamt vöxtum og dráttarvöxtum sem og viðurkenningarkröfu þess efnis að leigjanda bæri ekki að greiða leigu fyrir febrúar.