Tímabundinn leigusamningur. Reykingar íbúa.
Leigjandi kvartaði til leigusala vegna reykinga annarra íbúa í sama húsnæði og taldi m.a. að það væri verið að reykja kannabis. Óskaði leigjandi eftir því að reykingar yrðu bannaðar í öllu húsinu ekki bara í sameign. Húsreglur kváðu á um að bannað væri að reykja á sameiginlegum svæðum. Leigusali hafði samband við aðra íbúa hússins og óskaði eftir því að passað yrði upp á það að reykingalykt bærist ekki fram í sameign. Einnig hugðist leigusali fara yfir allar hurðir til að athuga hvort þær væru ekki þéttar.
Kærunefndin taldi ekki nein gögn liggja fyrir sem sýndu fram á að reykt hafi verið í sameign hússins eða að íbúar hafi verið að reykja kannabis. Leigusali hafi gert það sem í hans valdi var til að hlutast um afnot annarra leigjanda í húsinu til að valda leigjanda ekki meiri óþægindum eða ónæði en venjulega getur talist.
Niðurstaða: Kröfu leigjanda um að leigusali grípi til frekari aðgerða vegna reykinga er hafnað.