Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 15. nóvember 2022 – 15. nóvember 2023. Meðan á leigutíma stóð olli leigjandi tjóni á eigninni og var lögregla kölluð til. Með bréfi þann 21. mars 2023 skoraði leigusali á leigjanda að bæta skemmdirnar. Það gerði leigjandi ekki þrátt fyrir aðvörun um riftun. Samningi hafi því í kjölfarið verið rift og útburðarferli hafist. Leigjandi hafi að endingu verið borin út úr eigninni þann 27. júní 2023.
Til tryggingar á réttum efndum hafði leigjandi við upphaf samnings greitt leigusala tryggingarfé að fjárhæð 450.000 kr. Í kjölfar útburðar gerði leigusali kröfu í tryggingarféð vegna skemmda á eigninni. Leigjandi svaraði þeirri kröfu innan fjögurra vikna með því að hafna öllum kröfum í tryggingarféð að undanskildu tjóni vegna skemmda á hurðarhlera og veggtengli. Í svari leigjanda var það tjón áætlað 50.000 kr.
Leigusali hafi þá borið ágreining um kröfu í tryggingarféð fyrir kærunefnd húsamála.
Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir um upphaflega kröfu leigusala eftirfarandi;
”Kærunefnd telur að við kröfu eða áskilnað í tryggingarfé nægi ekki að lýsa yfir kröfu án nokkurrar tilgreiningar á þeim þáttum sem krafan varðar enda verður viðtakandi kröfunnar að geta áttað sig á efni hennar til þess að geta tekið afstöðu til hennar.”
Á þeim grundvelli taldi nefndin að ótilgreind krafa vegna skemmda hafi ekki uppfyllt þann áskilnað sem gerður er um kröfur í tryggingarfé í kjölfar skila á eignum. Var kröfu leigusala þar með hafnað þar sem hún var of seint til kominn fyrir utan þá þætti sem leigjandi hafði þegar fallist á.
Var leigusala þar með gert að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 400.000 kr. ásamt vöxtum og dráttarvöxtum en var heimilt að halda þeim hluta eftir sem leigjandi hafði fallist á.