Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. júlí 2021 – 30. júní 2023 á eign í fjölbýli. Ágreiningur milli aðila átti rót sína að rekja til múrviðgerða á húsinu og ónæðis af þeirra völdum. Að sögn leigjanda stóð til að vinna að heiman og næði þar með stór þáttur er kom að vali á húsnæði. Leigusali kvað á um að hafa upplýst leigjanda um að það stæði til að fara í umræddar framkvæmdir en þegar að húsaleigusamningur var gerður hafi málin eingöngu verið rædd á húsfundum.
Sumarið 2022 tilkynnti leigusali leigjanda um að framkvæmdir myndu að óbreyttu hefjast að hausti 2022. Komu aðilar sér saman um afslátt á leiguverði frá september-desember það sama ár. Afsláttur var svo aftur veittur af leigu í mars 2023 vegna ónæðis af framkvæmdunum en hafnaði leigusali að veita frekari afslátt fyrir apríl, maí og júní. Leigjandi lýsti yfir miklum vonbrigðum af þeim sökum og gerði t.a.m. athugasemdir við skort á upplýsingagjöf í tengslum við framkvæmdirnar.
Er kom að greiðslu leigu fyrir maí, ákvað leigjandi að greiða ekki leiguna þrátt fyrir að búa enn í eigninni. Í kjölfar þess að samningur rann sitt skeið á enda fór leigjandi fram á endurgreiðslu á tryggingarfénu sem lagt hafði verið fram í upphafi leigusamnings og nam ígildi 2 mánaða leigu, ásamt því að fara fram á bætur vegna lyf- og ferðakostnaðar sem og endurgreiðslu leigunnar fyrir það tímabil sem leigjandi dvaldi ekki í íbúðinni vegna hávaðans.
Leigusali krafðist þess að kröfum leigjanda væri hafnað og þar með viðurkenningar á rétti sínum til að nýta tryggingarfé leigjanda upp í vangoldna leigu fyrir maí og júní.
Í niðurstöðu kærunefndar var það rakið að framkvæmdir hefði átt sér stað meðan á leigunni stóð en ágreiningur ekki ágerst milli aðila fyrr en um mánaðarmótin mars/apríl 2023. Þá hafi ónæði vegna framkvæmdanna þegar orðið umtalsvert minna en haustið 2022. Leigjandi hafi ekki nýtt sér rétt sinn til að kalla eftir mati úttektaraðila á afslætti og að því virtu taldi nefndin að leigusala hafi verið heimilt að ráðstafa tryggingarfénu upp í vangoldna leigu fyrir maí og júní.
Bótakröfum leigjanda vegna lyf- og ferðakostnaðar var jafnframt hafnað.