Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2023. Leigusali krafðist þess að leigutaka yrði gert að greiða 2.640.000 kr. vegna vangoldinnar leigu og 393.960 kr. vegna skemmda sem urðu á hinu leigða á leigutímanum. Leigutaki krafðist þess að kröfunni yrði vísað frá kærunefnd. Til vara krafðist leigutaki að kröfum leigusala yrði hafnað. Ágreiningur snéri að kröfu leigusala í tryggingu varnaraðila vegna skemmda sem höfðu orðið á hinu leigða á leigutíma m.a. á hurðum, parketi, borðplötum og salernissetu. Einnig var ágreiningur um hvort leigutaka bæri að greiða leigu eftir 1. júlí 2022.
Niðurstaða kærunefndarinnar var að aðilar gerðu ekki sameiginlega úttekt á hinu leigða, hvorki við upphaf né lok leigutíma. Að því virtu að úttektar var ekki aflað á grundvelli 69. gr. húsaleigulaga og gegn neitun leigutaka fyrir skemmdum taldi kærunefndin að sóknaraðila hefði ekki tekist að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar. Varðandi ágreining um frekari leigu þá komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu m.t.t. rafrænna samskipta milli þeirra að samkomulag hafi verið komið á um skil íbúðarinnar þann 1. júlí. Taldi því kærunefndin að leigutaki hafi verið í góðri trú um að uppsagnarfrestinum yrði ekki haldið til streitu og féllst hún því ekki á kröfu leigusala um auka leigugreiðslu.