Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. janúar 2023. Um mánuði síðar tók leigjandi eftir rakaskemmdum og tók svokallað heimapróf. Niðurstöðum þess ásamt upplýsingum um skemmdirnar kom leigjandi í kjölfarið áleiðis til leigusala. Seint í mars 2023 setti leigjandi sig aftur í samband við leigusala m.a. til að athuga með nánari skoðun á rakaskemmdunum.
Lítið virðist hafa verið um skrifleg samskipti milli aðila í málinu en með tölvupósti þann 15. júní 2023 tilkynnti leigjanda leigusala um riftun á samningnum og kvaðst hafa þurft að flytja úr eigninni vegna veikinda og parketlúsar.
Leigjandi krafðist niðurfellingar á leigu fyrir júní mánuð en leigusali fór fram á viðurkenningu þess efnis að honum væri stætt á að krefjast leigu til 1. ágúst 2023 – þegar nýr leigjandi hafði flutt inn í eignina. Leigusali fór auk þess fram á bætur vegna meintra skemmda sem og útlögðum kostnaði við lögmannsaðstoð – var þeim kröfum leigusala hafnað.
Við úrlausn nefndarinnar á ágreiningnum er sneri að greiðsluskyldu leigunnar – taldi nefndin að engin gögn lægju fyrir sem sýndu fram á að eignin hafi verið óíbúðarhæf og að leigjandi hafi ekki nýtt rétt sinn til að framkvæma úttekt. Af þeim sökum taldi nefndin að um ólögmæta riftun af hálfu leigjanda hafi verið að ræða og leigusali þar með rétt á leigubótum þar til nýr leigjandi fannst, þ.e. þann 1. ágúst 2023.