11. október 2022
Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. janúar 2021 til 1. janúar 2022 um leigu leigutaka á íbúð leigusala. Aðilar komust að samkomulagi um að leigutíma lyki 1. maí 2022. Ágreiningur er um hvort leigusala sé heimilt að ganga að tryggingu leigutaka vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða á leigutíma sem og vegna þrifa við lok leigutíma.
Krafa leigusala í tryggingu leigutaka barst honum innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins og var málinu vísað til kærunefndar innan fjögurra vikna frá höfnun leigutaka á kröfu leigusala.
Hvorki liggur fyrir sameiginleg úttekt aðila á hinu leigða við upphaf og lok leigutíma né úttekt óháðs úttektaraðila. Í leigusamningi er getið með almennum hætti um skemmdir á hinu leigða sem leigusali sé meðvitaður um og þar á meðal eru nefndar skemmdir eftir flutninga. Ekki liggja þannig fyrir gögn sem sýna fram á hvert ástand hurðanna, rofanna, fataskápanna og gardínanna var við upphaf leigutíma, að undanskildum myndum sem leigusali kveður hafa verið teknar fyrir leigutíma en ekki verður þó ráðið að þær hafi verið hluti af sameiginlegri úttekt aðila. Að því virtu að úttektar var ekki aflað á grundvelli 69. gr. húsaleigulaga og gegn eindreginni neitun leigutaka á því að hafa valdið téðum skemmdum telur kærunefnd að leigusala hafi ekki tekist að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar og er kröfu hans því hafnað.
Leigusali gerir kröfu að fjárhæð 70.000 kr. vegna málaraþjónustu, þrifaþjónustu sem og sorphirðugjalda. Leigutaki fellst á að þrifum hafi verið ábótavant við lok leigutíma sem og að hann hafi skilið eftir ísskáp sem hafi þurft að farga. Leigutaki fellst á að greiða 50.000 kr. vegna þrifa og förgunar og þar af leiðandi er leigusala heimilt að fá þá fjárhæð greidda úr tryggingu leigutaka. Telur kærunefnd ekki tilefni til að fallast á kröfu leigusala umfram þá fjárhæð, enda liggur ekki fyrir sameiginleg úttekt aðila.
Niðurstaða: Leigusala er heimilt að fá greiddar 50.000 kr. úr tryggingu leigutaka. Að öðru leyti er kröfum leigusala hafnað.