Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning um leigu á íbúð. Á leigutíma fjarlægði leigjandi reykskynjara úr sökkli þar sem brunakerfið hafi gefið frá sér hljóð. Þegar hann hafi sett skynjarann aftur upp hafi ekki verið unnt að endursetja kerfið. Því hafi verið nauðsynlegt að setja nýjan reykskynjara svo hægt væri að koma brunakerfinu í eðlilegt horf. Leigjandi kallaði til viðgerðarmanns og sendi í framhaldi reikning fyrir vinnu viðgerðarmannsins á leigusala. Hins vegar hafði leigusali áður sent póst, þar sem fram kom að ekki mætti undir nokkrum kringumstæðum taka reykskynjarann úr sambandi. Þá kom fram í rafrænum samskiptum aðila hvernig bæri að bregðast við færi reykskynjari í gang.
Kærunefnd taldi liggja fyrir að bilun í brunakerfi hússins hafi mátt rekja til þess að átt hafi verið við reykskynjara í íbúðinni. Þar sem fyrir lágu upplýsingar um hvernig ætti að bregðast við ef brunakerfið færi í gang og leigjandi hafi verið upplýstur um að ekki mætti taka skynjarann úr sambandi taldi kærunefnd að leigjandi hafi ekki mátt eiga við skynjarann þrátt fyrir að hann færi í gang.
Niðurstaða: Leigjanda var óheimilt að krefja leigusala um kostnað vegna viðgerðarmanns.