Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. júní 2018 til 31. maí 2019 um leigu á íbúð. Deilt var um endurgreiðslu tryggingarfjár. Samkvæmt leigusamningi aðila greiddi leigjandi 300.000 kr. í tryggingarfé við upphaf leigutíma en leigusali hélt eftir 70.000 kr. á þeirri forsendu að skemmdir hafi orðið á hinu leigða á leigutíma en leigjandi hafi ekki loftað nægilega út þannig að mygla hafi myndast í glugga í svefnherbergi.
Leigusamningi aðila lauk 31. maí 2019. Með tölvupósti leigjanda til leigusala 17. júní 2019 gerði hann athugasemdir við að einungis hefðu verið endurgreiddar 200.000 kr. af tryggingarfénu. Næsta dag upplýsti leigusali að hann héldi eftir hluta af tryggingarfénu vegna mygluskemmda í glugga sem hafi komið til vegna of mikillar rakamyndunar í íbúðinni á leigutíma. Í þeim tölvupósti bauðst leigusali til að endurgreiða 30.000 kr. til viðbótar og að með því yrði málinu lokið. Þann 10. júlí 2019, ítrekaði leigjandi kröfu sína um fulla endurgreiðslu tryggingarfjárins. Sama dag millifærði leigusali inn á leigjanda 30.000 kr. en sendi jafnframt kæru til kærunefndar. Kærunefnd taldi að af samskiptum aðila að dæma hefði leigusali lítið svo á að ekki væri ágreiningur um kröfu hans. Taldi því kærunefnd ekki rétt að fallast á kröfu leigjanda um endurgreiðslu á tryggingarfé á þeim grundvelli að leigusali hefði ekki vísað ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfðað mál um bótaskyldu hennar innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi afhenti eignina.
Kærunefnd taldi ljóst að ekki hafi verið framkvæmd úttekt á hinni leigðu eign, hvorki við upphaf né lok leigutíma. Í málinu liggja myndir af gluggum en þær staðfesta ekki að skemmdir á þeim megi rekja til leigjanda. Gegn neitun leigjanda taldi kærunefnd að leigusala hefði ekki sannað að leigjandi hafði valdið spjöllum á hinu leigða.
Niðurstaða: Leigusala bar að endurgreiða leigjanda tryggingarféð að fjárhæð 70.000 kr.