10. nóvember 2022
Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. febrúar 2022 um leigu leigutaka á íbúð leigusala. Ágreiningur er um hvort leigutökum beri að greiða leigu fyrir tímabilið 1.-11. maí 2022.
Uppsagnarfrestur samkvæmt leigusamningi var sex mánuðir. Leigutakar hafi beðið um að fara fyrr og samið hafi verið um að greitt yrði fyrir dagana þar til þau skiluðu íbúðinni. Þau hafi skilað 11. maí og leiga fyrir það tímabil sé 85.000 kr.
Óumdeilt er að aðilar komu sér saman um að greidd yrði leiga þar til afnotum leigutaka lyki. Kærunefnd telur að þar sem óumdeilt er meðal aðila að leigutakar skiluðu íbúðinni 11. maí 2022 beri þeim að greiða leigu til þess dags.
Ástæður þær sem leigutakar nefna um að þau hafi orðið fyrir miklum fjárútlátum og tilfinningalegu tjóni vegna flutninganna leiða ekki til þess að skylda þeirra til þess að greiða leigu fyrir afnot leiguhúsnæðisins falli niður. Verður því fallist á að leigutökum beri að greiða 85.000 kr.
Niðurstaða: Leigutökum ber að greiða leigu að fjárhæð 85.000 kr.