Aðilar gerðu tvo tímabundna leigusamninga annars vegar frá 1. janúar 2021 til 31. desember 2021 og hins vegar frá 1. janúar 2022 til 31. desember 2022. Ágreiningur snéri að því hvort leigusala bæri að greiða reikning vegna fatahreinsunar en leigutaki kvaðst hafa þurft að fara með föt í fatahreinsun vegna fúkkalyktar í íbúðinni á leigutíma. Leigutaki gerði kröfu um að leigusali bætti honum útlagðan kostnað að fjárhæð 35.000 kr. vegna fatahreinsunar. Leigutaki gerði einnig kröfu um að útreikningur leigusala á uppsöfnuðum vöxtum á tryggingarfé kæmi til endurskoðunar. Leigusali taldi að fúkkalykt hafi stafað frá stokk sem hafi legið eftir lofti í forstofunni utan um frárennslislögn frá salerni efri hæðar en að lyktin hafi aðeins verið í forstofunni. Úrbætur hafi verið gerðar á stokknum áður en íbúðin hafi verið leigð út. Niðurstaða kærunefndarinnar var að leigutaki hafi ekki gert athugasemdir við hið leigða hvorki við upphaf leigutíma né á meðan leigutíma stóð eða að hann hafi gert kröfu um úrbætur sbr. 16. og 20. gr. húsaleigulaga. Varðandi kröfu leigutaka um rangan útreikning vaxta á tryggingarfé þá hafnaði kærunefndin því á þeim grundvelli að engin efnisleg andmæli bárust við útreikninginn og engin gögn voru lögð fram sem sýna fram á að hann hafi verið rangur. Niðurstaða kærunefndarinnar var að hafna kröfum leigutaka.