Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. júlí 2022 – 1. júlí 2023. Samningnum lauk fyrr en samningur kvað á um og var eigninni að endingu skilað þann 28. febrúar 2023. Í kjölfar skila gerði leigusali kröfu í tryggingarfé leigjanda. Byggði krafa leigusala á því að rakaskemmdir hefðu orðið víðsvegar í eigninni vegna ónógrar útloftunar. Leigjandi hafnaði kröfu leigusala með skriflegum hætti skömmu eftir að hún barst. Leigusali bar ágreining um bótaskyldu aftur á móti ekki fyrir kærunefndina innan fjögurra vikna frá því að höfnun barst og glataði þar með rétti sínum til bóta. Kröfu leigusala í tryggingarfé leigjanda var því hafnað.