Um tímabundinn samning á verslunar- og veitingahúsnæði var að ræða sem tók gildi árið 2022 og var til 10 ára. Að sögn leigutaka hafði leigusali fyrir undirritun samnings upplýst hann um að ekkert mál yrði að fá leyfi fyrir útblástursröri. Tveimur mánuðum frá undirritun samningsins kom aftur á móti í ljós að meðeigandi leigusala samþykkti ekki að koma slíku röri fyrir. Krafðist leigutaki þar með ógildingar á leigusamningnum á grundvelli forsendubrests. Engin gögn fylgdu kæru leigutaka sem sýndu fram á að leyfi hefði ekki fengist þrátt fyrir að nefndin hefði sérstaklega kallað eftir þeim. Leigusali brást jafnframt ekki við kærunni og skilaði ekki inn greinargerð. Sökum skorts á upplýsingum taldi nefndin ómögulegt að taka málið til úrlausnar og hafnaði þar með kröfu leigutaka um ógildingu samningsins.