Aðilar gerðu leigusamning þar sem leigutaki tók á leigu skrifstofurými. Samkvæmt samningnum var upphaf leigutíma 1. mars 2022 og var samningurinn bundinn í 12 mánuði en eftir það yrði hann ótímabundinn. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur voru þrír mánuðir eftir 12. mánuða bindandi leigutíma. Ágreiningur er hvort heimild til uppsagnar hafi tekið gildi fyrir eða eftir fyrstu 12 mánuði leigutímans. Leigutaki krefst þess að viðurkennt verði að leigutíma hafi lokið 28. febrúar 2023. Einnig að viðurkennt verði að leigusala beri að endurgreiða tryggingarfé sem nemur tveggja mánað leigu ásamt vöxtum í samræmi við ákvæði 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Auk þess krefst leigutaki málskostnaðar úr hendi leigusala. Aðila greinir á um hvort samningur þeirra hafi verið tímabundinn til eins árs og þannig lokið 28. febrúar 2023 eða hvort hann hafi verið ótímabundinn en þó þannig að ekki væri unnt að segja honum upp fyrstu 12. mánuði hans. Fram kom í leigusamningi að upphaf leigutíma sé 1. mars. 2022, samningurinn sé bundinn í tólf mánuði en að þeim tíma loknum sé hann ótímabundinn og uppsegjanlegur með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Kærunefndin taldi að samningurinn hafi þannig ekki verið tímabundinn til 28. febrúar 2023 heldur hafi ekki verið heimilt að segja honum upp fyrr en að 12. mánuðum liðnum. Taldi nefndin að leigutaki hafi verið bundin að þessu ákvæði enda eru húsaleigulögin frávíkjanleg þegar um atvinnuhúsnæði er að ræða. Var kröfu leigutaka um að leigutíma hafi lokið 28. febrúar 2023 því hafnað. Kærunefndin hafnaði kröfu leigutaka um málskostnað með vísan til þess að ekki er lagaheimild til þess að úrskurða leigutaka málskostnað.