25. ágúst 2022
Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 15. maí 2018. Ágreiningur er um kröfu leigusala um að leigutaka beri að greiða vísitöluhækkun á leigu eftir á.
Til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila lagði leigutaki fram tryggingarfé að fjárhæð 330.000 kr. við upphaf leigutíma. Leigutíma lauk í lok nóvember 2021 og hélt leigusali tryggingarfénu eftir á þeim grunni að leigutaki hafi ekki greitt verðbætur ofan á leigufjárhæð á leigutíma í samræmi við hækkanir á vísitölu.
Kærunefnd telur gögn málsins ekki bera annað með sér en að leigutaki hafi greitt 330.000 kr. í leigu allan leigutímann. Við innheimtu á leigunni nýtti leigusali þannig ekki heimild sína samkvæmt leigusamningi til að bæta verðbótum ofan á umsamda leigufjárhæð.
Kærunefnd telur því að leigutaki hafi mátt ætla að leigusali hefði fallið frá heimild sinni vegna tómlætis til að bæta verðbótum við leigufjárhæð og treysta því að um fullnaðargreiðslu væri að ræða er leigusali tók athugasemdalaust við leigugreiðslum án verðbóta. Telur kærunefnd að leigusali hafi af þessum sökum verið óheimilt að ráðstafa tryggingarfénu með þessum hætti.
Niðurstaða: Leigusala ber að endurgreiða leigutaka tryggingarfé að fjárhæð 330.000 kr.