Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. október 2017 um leigu sóknaraðila á skrifstofuhúsnæði. Ágreiningur snéri að lögmæti riftunar leigutaka. Leigusali krafðist þess að viðurkennt yrði að uppsagnarfrestur yrði sex mánuðir frá 1. desember 2022. Leigutaki krafðist þess að kröfum leigusala yrði hafnað. Vegna einkenna starfsmanns leigutaka framkvæmdu aðilar myglupróf í hinu leigða sem sýndu jákvæðar niðurstöður. Í framhaldi af því sammæltust aðilar um að verkfræðistofa yrði fengin til að framkvæma skoðun og sýnatöku. Í niðurstöðum hennar dags 15. júní 2022 sagði að sýnatökur höfðu leitt í ljós nægilegar vísbendingar um mengun, þó mismikla. Tekin voru fimm sýni á völdum stöðum og sýndu þrjú þeirra gró/ eða sveppa hluta. Lagðar voru til lagfæringar á útvegg og gluggum. Leigutaki taldi að úrbætur sem leigusali hóf hvorki fullnægjandi né í samræmi við tillögur verkfræðistofunnar. Rifti leigutaki samningnum 15. nóvember 2022. Það lágu fyrir vottorð frá læknum vegna fimm starfsmanna þar sem þremur þeirra var ráðlagt að mæta ekki á vinnustaðinn vegna myglu, eitt vottorð sem staðfesti að starfsmaður gæti ekki unnið í mygluhúsnæði vegna einkenna sinna og annað vottorð sem staðfesti að starfsmaður væri með einkenni sem gætu tengst myglu. Fyrirliggjandi gögn verkfræðistofunnar staðfestu að þörf væri á ýmsum úrbótum og viðhaldi og að mygla hafi greinst að hluta. Aftur á móti taldi kærunefndin það ekki staðfesta að húsnæðið hafi spillst svo á leigutíma að það nýttist ekki lengur til fyrirhugaðra nota. Auk þess höfðu heilbrigðisyfirvöld ekki komist að niðurstöðu um að húsnæðið teljist heilsuspillandi. Taldi kærunefndin því að leigutaka hafi verið óheimilt að rifta leigusamningnum.