Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. september 2018 um leigu á íbúð. Leigjandi lagði fram tryggingafé að fjárhæð 150.000 kr., til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila. Stuttu eftir að leigjandi flutti inn í íbúðina tók hann eftir raka og tilkynnt leigusala símleiðis 17. janúar 2019 að fundist hefði mygla og hann yrði að fara úr íbúðinni tafarlaust. Leigusali sagði að það yrði að vera ákvörðun leigjanda, en hann myndi ekki taka afstöðu án þess að sjá hvernig íbúðin liti út. Þann 2. febrúar 2019 flutti leigjandi út og skilað leigusala lyklum. Stuttu síðar gerði leigusali samning við nýjan leigjanda og afhent honum lykla 1. mars 2019. Leigjandi hafði í framhaldinu ítrekað reynt að fá tryggingarféð endurgreitt en án árangurs. Að sögn leigusala hafði verið nagla- og skrúfuför í flestum veggjum. Þá hafi íbúðin verið illa þrifin og sófi skilinn eftir. Að sögn leigusala hafi honum verið ómögulegt að gera kröfu í tryggingarféð þar sem hann hefði ekki búið yfir upplýsingum um heimilisfang leigjanda. Hins vegar lá fyrir að aðilar áttu rafræn samskipti og fellst kærunefnd því ekki á að leigusala hafi verið ómögulegt að gera skriflega kröfu í tryggingarféð á þeirri forsendu. Kærunefnd taldi að þar sem leigusala hafði ekki gert kröfu í tryggingarféð innan fjögurra vikna frests líkt og áskilið er í lögum bæri honum að endurgreiða tryggingaféð ásamt dráttarvöxtum.
Niðurstaða: Leigusala bar að endurgreiða leigjanda tryggingarféð að fjárhæð 150.000 kr.