Tímabundinn leigusamningur. Riftun leigjanda. Tryggingarfé.
Aðilar gerðu með sér tímabundinn leigusamning frá 1. nóvember 2019 til 31. janúar 2021. Þann 15. nóvember 2020 rifti leigjandi leigusamningi á þeim forsendum að eðlilegum afnotum og heimilisfriði hafi verið verulega raskað vegna ítrekaðra brota íbúa á neðri hæð. Myndi hann skila af sér eigninni þann 1. desember 2020. Miklar framkvæmdir áttu sér stað í eigninni fyrir neðan hið leigða og hafði leigjandi ítrekað kvartað við leigusala og íbúa. Komið hafi til leiðinda á milli íbúa og sendi Húseigandafélagið t.a.m. erindi fyrir hönd íbúa hússins með kvörtun til leigusala yfir framkomu leigjanda.
Kærunefndin taldi riftun leigjanda vera ólögmæta enda væri ekkert sem benti til brota af hendi annarra í húsinu. Eðli málsins samkvæmt fylgir því hávaði þegar íbúðir eru endurnýjaðar. Leigjandi skilaði ekki af sér eign á þeim tíma er hann tiltók í riftunartilkynningu heldur þurfti leigusali að fara inn í eignina þegar ljóst var að leigjandi var farinn og tæma hana og þrífa.
Niðurstaða: Riftun leigjanda var ólögmæt. Leigusala var því heimilt að halda eftir tryggingarfé vegna vangoldinnar leigu fyrir desember mánuð.