Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. júlí 2017 til 30. júní 2019 um leigu á íbúð. Leigjandi lagði fram tryggingafé að fjárhæð 750.000 kr., til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila. Að sögn leigjanda vildi hann losna fyrr undan leigusamningi og samþykkti leigusali það gegn því skilyrði að það yrði honum að kostnaðarlausu. Leigjandi fann nýja leigjendur og fékk staðfestingu frá umboðsmanni leigusala að nýir leigjendur tækju við íbúðinni 1. júlí 2018. Leigjandi hafði skrifað undir nýjan leigusamning við annan leigutaka. Nokkrum dögum síðar fékk hann tölvupóst um að þeir leigjendur sem hann hafði fundið hefðu hætt við að leigja íbúðina. Vegna þessa hafi leigusali krafið leigjanda um leigubætur að fjárhæð 750.000 kr. sem samsvaraði þriggja mánaða leigu.
Fyrir lágu samskipti fasteignasalans við hina nýju leigjendur þar sem fram kom að þeir höfðu þegar greitt leigu fyrir júlí 2018. Þá höfðu þeir einnig greitt fasteignasala umsýslugjald vegna leigusamningsins. Með hliðsjón af því taldi kærunefnd að samningur hafi komist á um leigu íbúðarinnar. Að mati kærunefndar mátti leigjandi treysta því að samningi aðila væri lokið eftir að hafa fengið upplýsingar frá fasteignasalanum í lok maí 2018 um að þetta væri klárt og að nýir leigjendur myndu taka við. Það hvernig samskipti fasteignasalans og nýju leigjendanna hafi þróast gat ekki verið á ábyrgð leigjanda.
Niðurstaða: leigutíma hafi lokið 30. júní 2018 og leigjanda bar því ekki að greiða leigusala leigu frá þeim tíma. Fallist var á kröfu leigjanda um að krafa leigusala hafi verið ólögmæt.