Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 13. ágúst 2021 til 15. maí 2022. Við upphaf samningsins lagði leigjandi fram tryggingu að fjárhæð alls 570.000 kr. inn á reikning leigusala. Eftir að leigutíma lauk fór leigjandi fram á endurgreiðslu á tryggingarfénu. Leigusali upplýsti leigjanda að hann myndi ganga frá endurgreiðslu þann 5. júní 2022 sem leigjandi samþykkti. Þann 15. júní hafði greiðsla enn ekki borist og sendi leigjandi leigusala þá tölvupóst og rak á eftir greiðslu. Sama dag barst svar frá leigusala þess efnis að gengið yrði frá greiðslu næstu mánaðarmót. Greiðsla barst aftur á móti ekki og í kjölfarið hófst ágreiningur milli aðila um meintar skemmdir á innbúi hins leigða. Þann 16. september 2022 endurgreiddi leigusali þriðjung fjárhæðarinnar til baka en ennþá var ágreiningur um eftirstöðvar. Leigjandi bar þann ágreining undir kærunefnd húsamála.
Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kröfur leigusala hafi verið of seint til komnar og féllst þar með á kröfu leigjandans um endurgreiðslu á eftirstöðvum tryggingarfjárhæðarinnar ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.