Riftun tímabundins leigusamnings. Tryggingarfé.
Tímabundinn leigusamningur var gerður frá 1. mars 2020 til 28. febrúar 2021. Lagði leigjandi fram 400.000 kr. tryggingu í byrjun leigutíma. Þann 1. desember tilkynnti leigjandi að hann gæti ekki greitt leigu og óskaði eftir því að leigusali nýtti hluta af tryggingarfénu upp í leigu. Leigusali tilkynnti leigjanda 9. desember að þar sem hann gæti ekki greitt leiguna þyrfti hann að skila lyklunum af íbúðinni. Leigusali upplýsti leigjanda 13. desember að þar sem hann væri fluttur út og ekki hafi náðst í hann í síma þurfi hann að borga lyklasmið til að opna íbúðina. Þegar leigusali kom inn í íbúðina áttaði hann sig á því að leigjandi væri ekki fluttur þar sem búslóðin hans var enn í íbúðinni. Leigjandi óskaði þá í framhaldinu eftir endurgreiðslu á tryggingarfé að undanskildum 13 dögum í desember þar sem leigusalinn vildi að hann kæmi og tæki búslóðina og þrifi íbúðina. Leigusali hafnaði endurgreiðslu á tryggingarfé að fullu.
Kærunefndin taldi að leigusali hafi skilið skilaboð leigjanda frá 1. desember á þá leið að hann myndi flytja út samdægurs. Leigjandinn aftur á móti vildi vera út leigutíma en að leiga yrði tekin af tryggingarfé. Þar sem leigusali krafðist þess að leigjandi yfirgæfi íbúðina eftir að honum var ljóst að leigjandi byggi þar enn hafi hann svipt leigjanda umráðum hins leigða án þess að lagaskilyrði væru fyrir.
Niðurstaða: Leigusala ber að endurgreiða leigjanda tryggingarfé að upphæð 345.478