Ótímabundinn leigusamningur. Krafa leigjanda um endurgreiðslu á tryggingarfé. Tómlæti.
Við upphaf leigutíma greiddi leigjandi leigusala tryggingarfé að fjárhæð 430.000 kr. Við lok leigutíma endurgreiddi leigusali einungis 215.000 kr. af tryggingarfé. Leigusali hafði gert kröfu í tryggingarféð vegna skemmda og slæmra þrifa. Leigjandi hafnaði kröfu leigusala og ítrekaði beiðni um að eftirstöðvar tryggingarfjár yrði endurgreiddar. Telur kærunefndin að leigusala hefði átt að vera það ljóst að ágreiningur væri uppi um bótaskyldur leigjanda. Bar því leigusala að skila eftirstöðvum tryggingarfjár eða leggja málið fyrir kærunefnd húsamála innan fjögurra vikna frá höfnun leigjenda sbr. 5. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Leigusali taldi að leigjandi hafi sýnt af sér tómlæti þar sem hann hafði ekki lagt málið fyrir kærunefnd húsamála fyrr en að 14 mánuðum liðnum er hann ítrekaði kröfu sína til leigusala um endurgreiðslu á tryggingarfénu. Kærunefndin taldi ekki vera um tómlæti að ræða og engin ákvæði um slíkt er að finna í húsaleigulögunum. Skylda hafi aftur á móti hvílt á leigusala að skila tryggingarfénu eða vísa málinu til kærunefndar húsamála eða dómstóla innan lögboðins frests.
Niðurstaða kærunefndarinnar var að krafa leigusala í tryggingarféð væri niðurfallinn og var honum því gert að endurgreiða eftirstöðvar tryggingarinnar.