Aðilar gerðu tímabundna leigusamninga annars vegar frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022 og hins vegar frá 1. september 2022 til 31. ágúst 2023. Ágreiningur er um fjárhæð leigu. Leigutaki krafðist endurgreiðslu á ofgreiddri leigumeðan á leigutíma stóð. Leigutaki taldi að húsaleiga skv. samningi hafi átt að vera 83.708 kr. á árunum 2021 til 2022. Síðan hafi hún átt að vera 134.889 kr. á árunum 2022 til 2023. Leigutaki hafi hins vegar greitt hærri upphæð sem birst hafi í heimabanka eða um 80% hærri. Það kom í ljós að leiguverð í leigusamningi gerðum árið 2021 var tilgreint alls 83.708 kr. á mánuði en að leiguverð tæki breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við nóvemer 2012. Auk þess kom fram að bein greiðsla fyrir leiguafnot væri 83.708 kr. og að leigjandi bæri auk þess að greiða 12.257 kr. í hússjóð. Í samningum var sérstaklega tekið fram að húsaleiga breytist skv. breytingum á vísitölu leiguhúsnæðis sem Hagstofa Íslands gefi út. Kærunefndin taldi villandi að leigugjald sé án nokkura skýringa sagt vera leiguverð frá árinu 2012 að viðbættum verðbótum frá þeim tíma. Þá var ekki tilgreint í samningnum hver hins uppreiknaða fjárhæð er á þeim degi er samningur var gerður. Í síðari samningnum frá árinu 2022 hafði leigufjárhæðin verið uppfærð og bundin vísitölu neysluverðs frá júlí 2022. Auk tilgreindrar leigufjárhæðar fyrir bein leiguafnot var leigjanda einnig gert að greiða sérstakt gjald í hússjóð. Þrátt fyrir að nefndin teldi það villandi að binda leigufjárhæð við vísitölu frá árinu 2012 sýndu gögn málsins þó ekki fram á annað en að innheimt leiguverð hafi verið í samræmi við uppgefnar forsendur í leigusamningi aðila. Varðandi greiðslu í hússjóð taldi nefndin að jafnvel þótt það kæmi fram í samningi milli aðila að leigjandi greiddi í hússjóð væri um frávik frá almennri skiptingu rekstrarkostnaðar að ræða sem þyrfti að semja um sérstaklega. Um slík frávik var ekki fjallað í húsaleigusamningi milli aðila að öðru leyti en að leigjandi tæki að sér greiðslur hússjóðs Þegar óskað var eftir sundurliðun hússjóðsgjalda frá leigusala kom í ljós að þau samanstóðu af kostnaði vegna húseigendatryggingar, framkvæmdasjóðs o.þ.h. Af þeim sökum var fallist á kröfu leigjanda um endurgreiðslu hússjóðsgjalda meðan á leigusamningi stóð.