Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. október 2020 til 30. september 2021 um leigu á íbúðarhúsnæði. Ágreiningur er um hvort leigjanda hafi verið heimilt að halda eftir hluta leigu um þriggja mánaðar skeið á leigutíma á þeim forsendum að ástandi hins leigða húsnæðis hafi verið ábótavant.
Leigjandi hafi óskað eftir úrbótum er ekki var sinnt af leigusala. Greip þá leigjandi til þess ráðs að draga frá 40.000 kr. af leigu í desember 2020, febrúar og mars 2021. Þá greiddi hann ekki heldur fyrir september 2021 en leigutíma lauk 30. þess mánaðar.
Þann 15. mars 2021 fær leigjandi tilkynningu frá nýjum eiganda hússins að eftirleiðis beri honum að greiða leigu inn á hans reikning. Í kjölfarið sendir leigusali greiðsluáskorun þann 17. mars vegna vangoldinnar leigu. Leigjandi brást ekki við áskorun og taldi nýjan leigusala ekki eiga rétt til leigugreiðslna er fallið hafi á gjalddaga áður en hann fékk hið leigða afhent. Kærunefndin taldi að líta ætti til 13. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 þar sem segir að seljandi eigi rétt á arði af fasteign fram að afhendingu hennar til kaupanda. Þar sem nýi leigusalinn hafi ekki lagt fram nein gögn um að annað hafi gilt í fasteignarviðskiptum hans og upphaflegs leigusala taldi kærunefndin að nýi leigusalinn geti ekki talist eigandi meintrar kröfu upphaflegs leigusala á hendur leigjanda.
Niðurstaða: Kröfu leigusala var hafnað