Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. nóvember 2022 til 31. október 2023. Haustið 2023 fór leigjandi þess á leit við leigusala að endurnýja leigusamninginn þegar hann rynni sitt skeið. Var þeirri umleitan leigjanda hafnað og um það snerist ágreiningurinn í málinu.
Að mati leigjanda hafði leigusali hafnað því að endurnýja samninginn vegna ágreinings um það hvernig hann hafði lagt bifreið sinni. Krafðist hann viðurkenningar á því fyrir nefndinni að leigusala bæri að endurnýja samninginn.
Í niðurstöðu nefndarinnar var kveðið á um að eina leiðin til að knýja framlengingu fram með þeim hætti sem leigjandi fór fram á – væri beiting á svokölluðum forgangsrétti leigjanda.
Í húsaleigulögum er sérstaklega kveðið á um hvernig beitingu forgangsréttarins skuli háttað. Þar er t.a.m. gerð sú krafa að leigjandi tilkynni leigusala um beitingu forgangsréttar meira en þremur mánuðum áður en að gildandi samningur renni sitt skeið. Var það ekki raunin í máli þessu og þar sem skilyrði fyrir beitingu forgangsréttar voru ekki uppfyllt var kröfu leigjanda hafnað.