Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. október 2019 til 30. september 2020 um leigu leigutaka á herbergi í íbúð leigusala sem var með munnlegu samkomulagi framlengdur til 30. júní 2022. Ágreiningur snýr að því hvort leigusala hafi verið heimilt að halda eftir hluta af tryggingarfé vegna viðskilnaðar leigutaka á hinu leigða við lok leigutíma. Leigutaki fer fram á að viðurkennt verði að leigusala verði gert að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 40.000 kr. Til tryggingar á réttum efndum á leigusamningnum lagði leigutaki fram tryggingu að fjárhæð 90.000 kr.
Í leigusamningi var kveðið á um að þegar að leigutaki yfirgæfi herbergið þyrfti hann að mála það. Íbúðin hafði þó hvorki verið máluð áður en leigutaki flutti inn, við upphaf leigutímans né á leigutímanum. Leigutaki hafði flutt úr íbúðinni sökum þess að leigusali var að selja íbúðina en hafði skilað henni hreinni og án skemmda en þó ómálaðri. Leigutaki hafði samband við leigusala og krafðist endurgreiðslu tryggingafjár en fékk þau skilaboð frá konu leigusala að hún væri að hugsa málið. Að viku liðni fékk leigutaki endurgreitt 50.000 kr. en leigusali hélt eftir 40.000 kr. þar sem leigutaki hafi ekki staðið við samninginn um að mála herbergið hvítt við flutning úr íbúðinni.
Kærunefnd húsamála taldi engin gögn styðja það að leigusali hafi gert skriflega kröfu í tryggingarféð innan fjögurra vikna frá skilum herbergisins eins og leigusala ber að gera skv. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.
Niðurstaðan var að leigusala var óheimilt að halda eftir 40.000 kr. og bar að endurgreiða tryggingarféð að fjárhæð 40.000 kr. ásamt dráttarvöxtum.