Aðilar gerðu munnlegan samning um leigu á herbergi. Þann 1. febrúar 2019 urðu eigendaskipti á húsinu og nýr leigusali sagði leigusamningnum upp. Leigjandi fékk þó tíma til að finna annað húsnæði, eða allt fram til 1. júlí 2019. Í uppsagnarbréfinu stóð að leigjanda væri frjálst að fara hvenær sem hann vildi og þyrfti ekki að nýta uppsagnarfrest til 1. júlí 2019. Leigjandi fann fljótlega aðra íbúð til leigu og flutti út í lok mars 2019. Samkvæmt uppsagnarbréfinu átti leigjandi að fá alla trygginguna endurgreidda en leigusali hafnaði að endurgreiða tryggingaféð þar sem leigjandi hafði ekki látið leigusala vita í tíma að hann myndi fara á tilgreindri dagsetningu. Kærunefnd taldi að þar sem ekki var gerður skriflegur samningur hefðu aðilar gert ótímabundinn leigusamning en uppsagnarfrestur ótímabundna leigusamninga vegna leigu á einstökum herbergjum eru þrír mánuðir af beggja hálfu.
Kærunefnd taldi bæði óumdeilt að leigjandi flutti úr herberginu í lok mars 2019 og að hann upplýsti leigusala ekki um flutninginn með mánaðar fyrirvara. Kærunefnd taldi skýrt koma fram í uppsagnarbréfi leigusala að uppsagnarfrestur væri til 1. júlí 2019 en hann væri tilbúinn til að stytta frestinn í einn mánuð fyndi leigjandi annað húsnæði fyrir lok hans. Leigjandi flutti aftur á móti fyrirvaralaust úr herberginu í lok mars 2019. Þar sem leigjanda var það óheimilt bar honum að greiða eins mánaðar uppsagnarfrest.
Niðurstaða: Kröfu leigjanda um endurgreiðslu á tryggingarfé að fjárhæð 50.000 kr. var hafnað.