Krafa leigusala í tryggingarfé. Málningarvinna.
Aðilar gerðu með sér tímabundinn leigusamning. Í leigusamningi kom fram að leigjandi skyldi taka að sér að mála íbúðina en leigusali greiði efni. Eftir skil eignarinnar gerði leigusali skriflega kröfu í tryggingarféð innan tilsetts tíma. Krafa hans var kostnaður vegna málningarvinnu, á lofti íbúðarinnar sem hafði ekki verið málað af leigjanda, kaup á hitanema og raftenglum og uppsetningu. Taldi leigusali að málningarvinnan hafði verið þannig unnin að hún hafi valdið tjóni á hinu leigða er hann þurfti að lagfæra. Leigjandi hafnaði kröfunni er snýr að málningarvinnu en samþykkti kaupin á raftenglum sem hann myndi koma til leigusala. Leigjandi taldi sig ekki bera ábyrgð á hitanema þar sem hann hafði verið bilaður við upphaf leigutíma. Þegar leigjandi kom með tenglana til leigusala hafnaði hann móttöku þeirra.
Kærunefndin taldi ekki leika vafa á því að hitanemi hafi horfið úr eign á leigutíma og bæri því leigjandi ábyrgð á þeim kostnaði. Þar sem samkomulag hafði komist á milli aðila um að leigjandi myndi koma með raftengla, en móttöku þeirra svo hafnað, taldi nefndin ekki heimild vera til staðar til að taka þann kostnað af tryggingarfé. Nefndin taldi ekki sannað að málningarvinna leigjanda hafi valdið tjóni á eigninni og taldi því ekki heimild til staðar til að taka af tryggingarfé vegna málningarvinnu leigusala.
Niðurstaða: Leigusala er heimilt að draga kostnað vegna hitanema frá tryggingarfé en öllum öðrum kröfum er hafnað.